Svæðanudd – Reflexology

Hvað er svæðanudd? Svæðanudd er ekki baknudd. Margir virðast ekki vita hvað svæðanudd eða svæðameðferð er. Svæðanudd eins og stundað er á Íslandi er í raun blanda af tveimur erlendum meðferðargreinum, Zonetherapi sem þýðir svæðanudd og reflexologi sem þýðir viðbragðs- og svæðameðferð. Hugmyndin á bak við svæðanudd er að allir líkamshlutar eigi sér samsvörun á fótum og höndum. Að það séu til svæði eða viðbragðspunktar sem svara til hvers líffæris, innkirtils og allrar starfsemi líkamans í heild þannig að líkaminn og líkamlegt ástand endurspeglist í fótunum. Með því að nudda eða þrýsta á þessi svæði koma fram jákvæð áhrif á líffærakerfi og uppskeran er slökun og jafnvægi. Það er líka samspil orkurása, orkubrauta og punkta á þeim.

Líkamanum er stundum líkt við lifandi hljóðfæri sem við lifum í og tjáum okkur í gegnum. Ef einhvers staðar í líkamanum er ójafnvægi (dis-ease), sem kemur fram sem verkur í baki, augnþreyta eða hugarangur verða samsvarandi viðbragðssvæði þ.e.a.s. baksvæði, augnsvæði, höfuðsvæði og önnur tilheyrandi svæði aum viðkomu. Þjálfaður meðhöndlari merkir þessi aumu svæði ýmist sem smá korn, þykkildi eða sem spennu. Hægri fótur svarar hægri hlið líkamans og vinstri fótur vinstri hlið. Svæðanuddari meðhöndlar þessi aumu svæði með markvissu þrýstinuddi og aðstoðar þannig líkamann í að ná heildrænum bata.

Meðferð.

Þegar fagaðili tekur fólk í meðhöndlun byrjar hann á því að taka heilsufarsskýrslu. Síðan hagræðir hann nuddþega svo vel fari um hann, sótthreinsar og skoðar fætur hans, hitar þá upp og vinnur síðan með viðbragðssvæði fóta. Milli meðferða hvetur hann nuddþega til þátttöku í eigin bataferli með því að nudda sjálfur tiltekin svæði handa, þrýsta fingrum á vissa orkupunkta og lifa heilsusamlega.

Svæðameðferð er einstaklega áhrifarík meðferð sem eflir og styður batakerfi líkamans og kemur smám saman á alhliða jafnvægi og vellíðan.

Orkukerfið, blóðrásarkerfið, sogæða- og ónæmiskerfið eflist smá saman og nuddþegar finna fyrir djúpri slökun vegna jákvæðra áhrifa sem svæðanuddið hefur á taugakerfið. Einnig má búast við við vægum úthreinsunaráhrifum eftir og á milli meðferða eins og t.d. auknum svita, þvaglátum og hægðum.

Meðferðin tekur um það bil klst. í hvert skipti og virkar bæði fyrir- og uppbyggjandi. Æskilegt er að nuddþegi komi vikulega til tvisvar sinnum í viku til að byrja með eða þar til bati er greinilegur. Einkenni sem eru nýtilkomin lagast fyrr en þau sem hafa staðið yfir í lengri tíma.

Mér finnst mikilvægt að að bera virðingu fyrir líkama sínum, hlusta vel á þau skilaboð sem hann gefur og taka á þeim vandamálum sem upp koma á sem heildrænastan hátt. Það virkar hvetjandi, eykur sjálfstraust og vellíðan að taka þátt í eigin bataferli.