Dáleiðsla

Dáleiðsla er náttúrulegt hugarástand sem við förum öll í og stundum oft á dag. Við erum í þessu ástandi þegar við lesum góða bók, horfum á sjónvarp eða svífum um í dagdraumum. Þegar við erum í okkar daglegu atburðum eins og vinnu o.fl. þá erum við í náttúrulegu dáleiðsluástandi.

Hægt er að nýta dáleiðslu með annarri heildrænni meðferð eða eina og sér en nauðsynlegt er að vera meðvitaður um menntun meðferðaraðilans því einungis þeir sem hafa þjálfun og full réttindi til dáleiðslu eiga að vera að meðhöndla.

Í þúsundir ára hefur fólk notað dáleiðslu til þess að hjálpa sér við lærdóm, lækna andleg sár, bæta frammistöðu, breyta venjum eða jafnvel hraða annarri lækningu.

Dáleiðsla felur í sér innleiðslu þar sem einstaklingurinn er leiddur í góða slökun, einbeitingu og innlifun. Innleiðslan snýr að því að upplifa breytingu á hugsunum, hegðun, skynjun og skyni, en dáleiðsla á að upplifast sem þægileg meðferð.

Í hugum margra er dáleiðsla umvafin leyndardómi og þá sérstaklega þegar um undirmeðvitundina er að ræða. Vitað er að erfitt er að rannsaka undirmeðvitundina því ekki er hægt að mæla hana né snerta. En vitað er að þar geymum við ógrynni af minningum, draumum, óskum og væntingum sem koma stöðugt fram í huga okkar, bæði í vöku sem og draumi. Sumt af því virðist vera læst niðri í undirmeðvitund okkar en með dáleiðslu er hægt að kalla það fram.

Ýmsar skilgreiningar eru til á dáleiðslu. Eftirfarandi skilgreining er birt á Vísindavefnum:

„Dáleiðsla kallar fram vitundarástand sem unnt er að nýta í lækningaskyni til að bæta almenna líðan og efla ákveðna þætti í fari fólks. Hún er til dæmis nýtt til þess að taka á svefnörðugleikum, erfiðum höfuðverkjum og til að efla einbeitingu fólks í námi eða íþróttum.“ sjá hér

Dáleiðsla nýtist mjög vel sem meðferðatæki við ýmislegt eins og kvíða, depurð, sársauka, hætta að reykja, losa sig við erfiðar upplifanir og minningar, ýmiskonar fóbíur eins og til dæmis kóngulóafóbíu, flughræðslu, bílhræðslu o.fl.